Enski boltinn

Ferguson: Komið fram við okkur eins og skít

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Alex Ferguson, stjóri Manchester United, segir að enska knattspyrnusambandið komi illa fram við félagið og að United eigi betra skilið.

Ferguson var dæmdur í fimm leikja bann á síðasta keppnistímabili vegna ummæla sinna í fjölmiðlum en hann var nú að tjá sig um enska landsliðið. Útlit er fyrir að allt að átta leikmenn United verði valdir í enska landsliðið um helgina.

„Kannski munu þeir gera sér grein fyrir því hversu mikilvægu hlutverki Manchester United hefur að gegna fyrir enska landsliðið. Kannski þá hætta þeir að koma fram við okkur eins og skít,“ sagði Ferguson sem hefur aldrei verið mikill áhugamaður um enska knattspyrnusambandið.

Fabio Capello, þjálfari enska landsliðsins, mun tilkynna landsliðshóp sinn á sunnudaginn fyrir leikina gegn Búlgaríu og Wales í undankeppni EM 2012 í byrjun september.

Ferguson sagði það vera í góðu lagi en nýtti tækifærið til að gagnrýna forráðamenn sambandsins. „Ég er ánægður fyrir hönd leikmannanna. Þetta eru frábærir leikmenn.“

Talsmenn enska sambandsins vilja ekki svara ummælum Ferguson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×