Fótbolti

Beckham segir lítið um framtíðina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
David Beckham hefur lítið vilja segja um hvað taki við hjá honum eftir að keppnistímabilinu í bandarísku MLS-deildinni lýkur um helgina.

Lið hans, LA Galaxy, mætir þá Houston Dynamo í úrslitaleik deildarinnar en fimm ára samningurinn sem Beckham gerði við Galaxy á sínum tíma er að renna út.

Franska félagið Paris Saint-Germain er sagt vera á höttunum eftir Beckham og sumir fjölmiðlar hafa gengið svo langt að fullyrða að samkomulag sé þegar í höfn. Þá hefur einnig verið sagt að einn möguleikinn sé að Beckham muni næst kaupa sér félag í MLS-deildinni.

„Ég hef bara verið að hugsa um leikinn á sunnudag," sagði Beckham við fjölmiðla ytra. „Það er svo einfalt. Ég mun svo taka mér smá frí og taka svo ákvörðun um framhaldið."

„En ég hef notið þess að búa í Kaliforníu síðustu fimm árin. Það hafa komið upp augnablik þar sem við fjölskyldan höfum setið saman og þakkað fyrir hversu heppin við erum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×