Enski boltinn

Búið að reka Roy Keane frá Ipswich

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Roy Keane.
Roy Keane. Nordic Photos / Getty Images
Enskir fjölmiðlar greina frá því að forráðamenn Ipswich hafa ákveðið að reka Írann Roy Keane úr starfi knattspyrnustjóra félagsins.

Ipswich hefur tapað sjö leikjum af síðustu níu í ensku B-deildinni, nú síðast fyrir Nottingham Forest. Liðið er í nítjánda sæti deildarinnar.

Ipswich nýtur stuðnings auðkýfingsins Marcus Evans og hefur félagið fjárfast átta milljónum punda í leikmenn á þeim 20 mánuðum sem Keane hefur stýrt liðinu.

Keane kom að vísu Ipswich í undanúrslit ensku deildabikarkeppninnar þar sem liðið mun mæta Arsenal. Fyrri viðureign liðanna í undanúrslitunum fer fram á miðvikudagskvöldið.

Keane mun einnig missa af leik Ipswich við Chelsea í ensku bikarkeppninni á sunnudaginn.

Hann átti glæsilegan feril sem leikmaður, bæði með Manchester United og írska landsliðinu. Honum hefur hins vegar gengið illa að fóta sig sem knattspyrnustjóri en hann stýrði Sunderland frá 2006 til 2008 með misjöfnum árangri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×