Íslenski boltinn

Gunnleifur: Hugsum bara um okkur

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Gunnleifur Gunnleifsson.
Gunnleifur Gunnleifsson. Mynd/Vilhelm
Gunnleifur Gunnleifsson markvörður FH var að vonum sáttur eftir góðan 3-1 sigur á Grindavík á útivelli í kvöld og eftir úrslitin í Eyjum getur FH komist upp fyrir ÍBV með sigri þegar liðin mætast um næstu helgi í Kaplakrika.

„Mér fannst við hafa öll tök á þessum leik í fyrri hálfleik. Við höfðum mikla yfirburði á vellinum. Það var þannig í raun þangað til staðan var orðin 3-0. Þá gáfum við full mikið eftir og við hleyptum þeim inn í leikinn,“ sagði Gunnleifur.

„Þeir komu hátt með liðið og við áttum kannski að refsa þeim fyrir það. Þetta var sanngjarnt og aldrei í hættu. Þeir sköpuðu sér engin færi. Við erum með frábæra varnarmenn. Tommy veit alveg hvað hann er að gera og Freyr, þetta eru frábærir hafsentar. Við spiluðum á okkar styrkleika og auðvitað skoðum við hver andstæðingurinn er og spilum líka út frá því.“

„Við réðum hraðanum í leiknum og hefðum kannski mátt keyra upp hraðann aðeins meir í fyrri hálfleik en við réðum því svo sem hversu hraður þessi leikur yrði því við höfðum öll völd á honum. Við kláruðum leikinn í rauninni með þriðja markinu. Þá reyndum við bara að drepa þetta niður en vorum full værukærir,“ sagði Gunnleifur sem vildi ekki viðurkenna að FH væri með hugann við leikinn í Eyjum heldur hugsaði fyrst og fremst um að halda Val og Stjörnunni fyrir aftan sig í baráttunni um Evrópusæti.

„Það eina sem við getum gert er að hugsa um okkur, við vorum ekkert að pæla í leiknum úti í Eyjum. Nú er bara að fara undirbúa leikinn gegn ÍBV sem verður hörkuleikur. Við bjóðum þá velkomna í Kaplakrika,“ sagði Gunnleifur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×