Enski boltinn

Smith kom Diouf til varnar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
El-Hadji Diouf gekk á dögunum til liðs við Rangers í Skotlandi og fékk hann ansi dræmar viðtökur í skoskum fjölmiðlum.

Diouf lék sinn fyrsta leik með Rangers gegn Hearts í gærkvöldi þegar hann kom inn á sem varamaður eftir aðeins 20 mínútna leik.

Rangers vann leikinn, 1-0, en Eggert Gunnþór Jónsson lék allan leikinn í liði Hearts.

Walter Smith, stjóri Rangers, var spurður út í þær viðtökur sem Diouf hefur fengið hjá skoskum fjölmiðlum.

„Þær voru betri en þær sem fjöldamorðingi myndi fá - svona er þetta bara," sagði Smith.

Diouf er ekki sá vinsælasti í Skotlandi eftir að hann hrækti á stuðningsmenn Celtic í Evrópuleik með Liverpool á sínum tíma.

„Ég heyrði útvarpsviðtal við hann í gær þar sem hann baðst afsökunar á einum eða tveimur atvikum. En það var ekkert minnst á það í blöðunum í morgun," sagði Smith.

„Hann hefur gert sín mistök eins og allir aðrir en hann stóð fyrir sínu og viðurkenndi þau. En hér í Skotlandi eru viðbrögðin meiri og ýktari en annars staðar."

„Mér fannst hann standa sig vel í leiknum, sérstaklega miðað við að hann hefur ekki mikið spilað á síðustu vikum. Með meiri leikæfingu verður hann enn betri."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×