Eiður Smári Guðjohnsen verður í stóru hlutverki með íslenska landsliðinu á móti Norðmönnum í undankeppni EM á morgun. Hann var í viðtali við Hörð Magnússon íþróttafréttamann Stöðvar 2 á æfingu liðsins sem fram fór á gamla heimavelli Stabæk í gær.
„Ég geri aðallega væntingar til þess að við sýnum stolt og reynum að koma út úr þessum leik með einhverri jákvæðni. Það er lítil sem engin jákvæðni í kringum okkur um þessar mundir. Það er líka aðeins meira í húfi á móti Norðmönnum sem eru frændur okkar og ég held að við séum allir staðráðnir í að snúa umræðunni í kringum liðið í eitthvað jákvæðara tal," sagði Eiður Smári sem finnur sig vel í Grikklandi.
„Mér líkar mjög vel hjá AEK í Grikklandi fram að þessu. Þetta er allt öðruvísi og kannski smá ævintýri. Ég er nokkuð ánægður með undanfarnar vikur því ég hef getað tekið þátt í undirbúningstímabili. Við fórum áfram inn í Evrópudeildina sem er mjög mikilvægt fyrir klúbbinn og fyrir fjárhagsstöðu Grikklands í heild sinni. Það var mikilvægt sem og að fá að spila fótbolta því það er það skemmtilegasta sem að maður gerir," segir Eiður og bætir við:
„Það er ótrúleg stemmning í Grikklandi og fótbolti virðist vera aðalumræðuefnið. Þeir eru skemmtilega blóðheitir og annaðhvort eru menn hetjur eða skúrkar. Við Elfar erum ágætir eins og er og erum því ennþá í góðum málum," segir Eiður.
Eiður Smári: Grikkir eru skemmtilega blóðheitir
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
