Innlent

Vilja setja vistvænan kjúkling á markað

vistvæn brúnegg Framkvæmdastjóri Brúneggja segir mikla eftirspurn eftir vistvænum eggjum og kjúklingakjöti. 
fréttablaðiði/gva
vistvæn brúnegg Framkvæmdastjóri Brúneggja segir mikla eftirspurn eftir vistvænum eggjum og kjúklingakjöti. fréttablaðiði/gva
Eigendur Brúneggs eru nú að skoða þann möguleika að setja vistvæna unghana sem matvöru á markað.

Vistvænar unghænur frá Brúneggjum hafa verið seldar í verslunum Krónunnar, Nettó og í Melabúðinni, en það eru hænur sem hafa lokið varpi.

Kristinn Gylfi Jónsson, framkvæmdastjóri Brúneggja, segir fyrirtækið nú vera að skoða hvort hagur sé í því að ala upp hanana og gera úr þeim vistvæna matvöru þegar þeir hafa náð um 10 vikna aldri.

Í eggjaframleiðslu er hönum venjulega fargað.

„Þetta er verkefni sem við höfum verið með til skoðunar hjá okkur undanfarið,“ segir Kristinn. „Þetta yrðu minni kjúklingar en gengur og gerist hér á landi og mjög gott kjöt sem er nálægt lífrænum sjónarmiðum.“

Kjúklingarnir hjá Brúneggjum eru aldir á vistvænu fóðri og vaxa því mun hægar en hjá stærri kjúklingaframleiðendum, þar sem kjúklingarnir eru venjulega um 4 til 5 vikna gamlir þegar þeim er slátrað.

„Við létum framleiða smávegis af kjötinu fyrir okkur í janúar og prófuðum okkur áfram,“ segir Kristinn. „Það gafst mjög vel.“

Brúnegg hefur verið með egg á markaði í tvö ár, frá hænum á gólfi en ekki í búrum. Kristinn segir vaxandi áhuga vera bæði á kjötinu og eggjunum á markaðnum. Engar salmonellusýkingar hafa komið upp í framleiðslu Brúneggja.

Eins og kunnugt er uppgötvuðust rúmlega 50 tilfelli af salmonellusmiti á síðasta ári hjá þremur stærstu kjúklingaframleiðendum landsins. - sv


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×