Fótbolti

Ástæðan fyrir því að Beckham prinsessan hlaut nafnið Harper Seven

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Beckham fjölskyldan við brúðkaup Vilhjálms Bretaprins og Kate Middleton
Beckham fjölskyldan við brúðkaup Vilhjálms Bretaprins og Kate Middleton Nordic Photos/AFP
Stjörnuhjónin David og Victoria Beckham eignuðust dóttur á sunnudag en fyrir eiga þau synina Brooklyn, Romeo og Cruz. Dóttirin hefur hlotið nafnið Harper Seven og eru uppi ýmsar getgátur hvers vegna stúlkan hlaut nafnið.

Slúðurblaðið Daily Mail telur að nafnið Harper komi úr bandarískum sjónvarpsþætti sem bræðurnir Brooklyn, Romeo og Cruz séu miklir aðdáendur að. Þátturinn heitir Wizards Of Waverly Place og kemur úr smiðju Disney. Beckham á að hafa lesið bækur byggðar á sjónvarsþættinum fyrir syni sína þegar þeir voru yngri.

Fjölmiðillinn vitnar í heimildarmann sem er sagður náinn fjölskyldunni. Að hans sögn eru Beckham-hjónin mjög hrifin af nafninu en það hafi þó verið tillaga strákanna sem réð ferðinni. Sjónvarpsþættirnir fjalla um þrjú systkini með töframátt og vin þeirra, stelpu að nafni Harper Finkle.

Þá segir fjölmiðillinn að Seven eigi rætur sínar að rekja til leikmannatreyju Beckham sem sé númer sjö. Heimildarmaðurinn segir að sjö sé lukkutala David Beckham og hann hafi alltaf langað til þess að gefa barni sínu nafnið.

Önnur tilgáta er sú að Beckham hjónin séu miklir Seinfeld aðdáendur. George Costanza, karakterinn seinheppni úr Seinfeld-þáttunum, sagðist nefnilega vilja nefna barnið sitt Seven. Sagði Costanza að nafnið virkaði fyrir bæði kyn en hentaði þó sérstaklega fyrir stúlku.

Atriðið má sjá með því að smella hér.

Uppruni nafna sonanna er vel þekktur. Brooklyn er kenndur við hverfið í New York borg þar sem hann var getinn. Romeo er nefndur eftir persónu úr leikriti Williams Shakespeare. Cruz er nefndur eftir spænska orðinu fyrir kross.

Harper Seven Beckham vó 3,1 kg nýkomin í heiminn í Los Angeles þar sem Beckham-hjónin búa.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×