Innlent

Varðskipið Þór afhent í dag

Mynd/Landhelgisgæslan
Varðskipið Þór verður í dag afhent Landhelgisgæslunni við hátíðlega athöfn í Chile. Skipið leggur úr höfn á þriðjudag og kemur til landsins eftir rúman mánuð en áhöfnin áætlar að nýta siglingartímann til að læra á búnaðinn um borð.

Smíði skipsins seinkaði um tæp tvö ár vegna jarðskálftans í Chile árið 2010, en nú er það tilbúið og verður afhent Landhelgisgæslunni í Asmar skipasmíðastöð sílenska sjóhersins seinna í dag.

Þór er níutíu og þriggja metra langt skip en til samanburðar eru Ægir og Týr, eldri varðskip gæslunnar, sextíu metrar á lengd.

Áætlað er að skipið sigli frá Chile á þriðjudag. Siglt verður í gegnum Panamaskurð og á heimleiðinni verða bandarísku og kanadísku strandgæslurnar heimsóttar.

Áhafnarmeðlimir skipsins eru 15 talsins og ætla þeir að nýta þann tíma sem þeir verða á sjó til að kynnast skipinu og búnaðinum um borð.

Gert er ráð fyrir að Þór komi til Íslands miðvikudaginn 27. október næstkomandi, en þeir sem vilja taka forskot á sæluna geta litið inn á Sjávarútvegssýninguna sem nú fer fram í Fífunni í Kópavogi en þar er stórt líkan af varðskipinu til sýnis.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×