Enski boltinn

Coates semur við Liverpool - arftaki Carragher fundinn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Coates ásamt Damien Comolli, yfirmanni knattspyrnumála, hjá Liverpool.
Coates ásamt Damien Comolli, yfirmanni knattspyrnumála, hjá Liverpool. Nordic Photos / Getty Images
Liverpool hefur gengið frá kaupum á miðverðinum Sebastian Coates frá Nacional í Úrúgvæ. Coates, sem er tvítugur, skrifaði undir langtímasamning við Liverpool. Kaupverðið er talið vera um sjö milljónir punda eða sem nemur 1.3 milljörðum íslenskra króna.

Coates, sem stóðst læknisskoðun í dag, hefur þegar fengið atvinnuleyfi á Englandi. Úrúgvæinn þótti spila afar vel með landsliði sínu í Suður-Ameríkubikarnum í Argentínu fyrr í sumar. Úrúgvæ stóð uppi sem sigurvegari og Coates var valinn besti ungi leikmaður keppninnar.

Nýir liðsfélagar Coates, Charlie Adam og Luis Suarez, hafa þegar boðið kappann velkominn á samskiptasíðunni Twitter. Talið er að Suarez, landi Coates, hafi haft áhrif á ákvörðun Coates að ganga til liðs við Liverpool en fleiri lið í Evrópu voru á höttunum eftir honum.

Fróðlegt verður að sjá hvort Coates komist í lið Liverpool sem hefur farið ágætlega af stað í ensku úrvalsdeildinni. Hann verður þó væntanlega í liði Úrúgvæ sem leikur vináttulandsleik gegn Úkraínu á föstudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×