Enski boltinn

Goodwillie eftirsóttur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
David Goodwillie, fyrir miðju, fagnar marki í bikarúrslitaleiknum í vor.
David Goodwillie, fyrir miðju, fagnar marki í bikarúrslitaleiknum í vor. Nordic Photos / Getty Images

Skoski framherjinn David Goodwillie er orðaður við félög í ensku úrvalsdeildinn í breskum fjölmiðlum í dag.

Goodwillie lék með skoska U-21 landsliðinu gegn Íslandi í umspili um sæti á EM í Danmörku næsta sumar.

Hann er á mála hjá Dundee United en á átján mánuði eftir af samningi sínum við félagið. Goodwillie hefur áður verið orðaður við Rangers en nú eru félög í ensku úrvalsdeildinni byrjuð að sýna honum áhuga.

„Það hafa borist tvær fyrirspurnir með formlegum hætti en engin tilboð enn," sagði Stephen Thompson, stjórnarformaður United. Talið er að félagið vilji fá 1,5 milljónir punda fyrir kappann.

Hann hefur þegar spilað með skoska A-landsliðinu og skoraði í 3-0 sigri Dundee United á Ross County í úrslitaleik skosku bikarkeppninnar í vor.

Goodwillie þykir þó erfiður í skapi og hefur nokkrum sinnum komist í kast í lögin fyrir óspektir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×