Enski boltinn

Pulis um ónotaða varamenn: Alveg eins og hjá United og Chelsea

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tony Pulis, stjóri Stoke.
Tony Pulis, stjóri Stoke. Nordic Photos / Getty Images
Tony Pulis, stjóri Stoke, segir að félagið sé reiðubúið að selja hvaða leikmann sem er fyrir rétt tilboð en fátt virðist geta komið í veg fyrir að Eiður Smári Guðjohnsen sé á leið frá félaginu.

Félagaskiptaglugginn opnaði nú um áramótin og sagði Pulis í samtali við The Sentinel, staðarblaðið í Stoke, að allir leikmenn væru falir - meira að segja varnarmaðurinn og fyrirliðinn Ryan Shawcross.

„Ef einhver býður 30 milljónir punda í Shawcross verðum við að skoða það," sagði Pulis.

Eins og ítarlega hefur verið fjallað um er Eiður Smári á leið frá félaginu.

„Eiður hefur verið óheppinn því sóknarmennirnir okkar hafa ekki verið að standa sig illa," sagði Pulis en Eiður hefur aldrei fengið tækifæri í byrjunarliðinu og hefur ekki spilað með Stoke síðan í lok október.

„Vonda veðrið hefur gert það að verkum að hann hefur ekki getað spilað með varaliðinu en hann hefur verið duglegur að æfa á frídögunum sínum."

„Góðir leikmenn vilja spila og ég skil það. Tuncay er landsliðsfyrirliði Tyrklands og Ricardo Fuller aðalmaðurinn á Jamaíku."

„En skoðaðu bekkinn hjá Manchester United og Chelsea. Þetta er ekki bara svona hjá okkur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×