Fótbolti

Eggert Gunnþór: Þetta var gríðarlega svekkjandi

Eggert Gunnþór Jónsson var færður inn á miðjuna og skilaði því hlutverki mjög vel í 0-1 tapinu á móti Norðmönnum í Osló í kvöld. Eggert vann vel fyrir liðið og hélt stöðunni vel en var eins og aðrir leikmenn afar vonsvikinn að fá á sig mark í lokin.

„Við erum gríðarlega svekktir. Við settum mikla erfiðisvinnu í þennan leik. Það var mikil barátta í liðinu og við vorum að vinna vel en fáum á okkur mark í endann sem er gríðarlega svekkjandi," sagði Eggert.

„Það vantaði að við værum aðeins þéttari og þeirra djúpi miðjumaður númer átta var kannski að fá boltann of mikið. Við Helgi vorum samt að hlaupa mikið á miðjunni," sagði Eggert.

„Mér fannst þeir ekki vera að ógna okkur neitt sérstaklega því þeir voru ekkert að skapa sér mikið eða að komast í gegnum okkur. Þeir áttu mörg langskot sem voru flest ekki að skapa mikla hættu. Það er ekki fyrr en í endann sem þeir ná að skapa sér þetta færi sem gaf þeim markið en fram að því var ekki mikil hætta," sagði Eggert en það má sjá allt viðtalið við hann með því að smella hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×