Fótbolti

Eiður Smári: Hefðum mátt vera kaldari með boltann

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Osló skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen sagði eftir leikinn gegn Noregi í kvöld að það hafi verið margt jákvætt við leik íslenska liðsins. Noregur vann leikinn, 1-0, með marki úr vítaspyrnu undir lok leiksins.

„Þetta er auðvitað svekkjandi og þá sérstaklega í ljósi þess að liðið var búið að leggja mikið á sig í 87 mínútur. Norðmenn voru vissulega meira með boltann en ekki að skapa sér mikið af færum,“ sagði Eiður Smári en viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan eða með því að smella hér.

Hann játar því að íslenska liðið hafi ekki heldur skapað sér mikið í leiknum.

„Það helst í hendur við það að við ætluðum að vera þéttir í varnarleiknum. Við vorum svolítið langt frá markinu þeirra þegar við unnum boltann. En við spiluðum ágætlega á köflum - við hefðum kannski mátt vera aðeins kaldari að halda boltanum. Okkar bestu kaflar í leiknum komu þegar það tókst.“

Eiður segir heilmikið hægt að taka úr þessum leik fyrir þann næsta. „Allavega 87 mínútur af góðum varnarleik. Það eina leiðinlega er að við ætluðum að reyna að einblína á úrslitin í þessum leik. Við ætluðum okkur að reyna að fara héðan með jákvæð úrslit. Það hefur verið mikið talað um heimslista FIFA og ég held að allir hafi séð hér í kvöld að það er ekki svo mikill munur á þessum liðum eins og heimslistinn sýnir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×