Kenny Dalglish, stjóri Liverpool, segir það mögulegt að Alberto Aquilani verði áfram í herbúðum Liverpool í vetur en hann hefur æft með liðinu nú í sumar.
Aquilani gekk í raðir Liverpool fyrir tveimur árum síðan en náði sér ekki á strik fyrsta keppnistímabilið og hann var svo lánaður til Juventus þar sem hann spilaði allt síðasta tímabil.
Fastlega var búist við því að hann myndi vera áfram á Ítalíu en hann var orðaður við Juventus, Fiorentina og AC Milan. Forráðamenn Liverpool neituðu hins vegar að láta hann ódýrt frá sér og því sneri hann aftur til æfinga á Englandi í síðasta mánuði.
„Við höfum verið mjög ánægðir með hann á undirbúningstímabilinu og það er ánægjulegt að hann skuli vera hluti af okkar liði,“ sagði Dalglish við enska fjölmiðla.
Aquilani er miðvallarleikmaður en Liverpool hefur keypt þrjá slíka leikmenn til félagsins í sumar fyrir samtals 45 milljónir punda - þá Charlie Adam, Jordan Henderson og Stuart Downing. Fyrirliðinn Steven Gerrard er reyndar meiddur og verður frá fyrsta mánuðinn á keppnistímabilinu.
Dalglish: Mögulegt að Aquilani verði áfram
Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
