Fótbolti

Fernando Hierro ráðinn til Malaga

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hierro, Figo, Makalele og Ronaldo á góðri stundu hjá Real Madrid.
Hierro, Figo, Makalele og Ronaldo á góðri stundu hjá Real Madrid.
Abdullah Al Thani eigandi spænska knattspyrnuliðsins Malaga heldur áfram að bæta við sig stórstjörnum. Fernando Hierro er genginn til liðs við félagið og verður nýr yfirmaður knattspyrnumála hjá félaginu. Hierro samdi við Malaga til fjögurra ára.

Hierro hefur starfað sem yfirmaður knattspyrnumála hjá spænska landsliðinu undanfarin misseri og hafði áætlað að taka sér frí frá knattspyrnu.

„Um tíma ætlaði ég að eiga rólegt ár en það var aldrei spurning um að samþykkja boð Malaga að snúa aftur heim," sagði Hierro við spænska fjölmiðla. Hierro þekkir vel til hjá Malaga en hann steig sín fyrstu spor sem knattspyrnumaður hjá félaginu.

Fjölmargir reyndir knattspyrnukappar hafa gengið til liðs við félagið að undanförnu. Joris Mathijsen, Júlio Baptista, Martín Demichelis, Ruud van Nistelrooy, Jérémy Toulalan og Joaquiín eru allir í herbúðum félagsins.

„Þetta er mjög metnaðarfullt verkefni, ánægjulegt og spennandi og ég tel mig heppinn að vera hluti af því. Það eru spennandi tímar í gangi hjá Malaga og ætla að gera mitt besta til að hjálpa verkefninu að vaxa," sagði Hierro.

Abdullah Al Thani hefur greint frá markmiðum sínum að koma félaginu í fremstu röð. Knattspyrnustjóri Malaga er Manuel Pellegrini frá Chile.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×