Fótbolti

Rooney missir af allri riðlakeppni EM - dæmdur í þriggja leikja bann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Roney gengur af velli í Svartfallalandi.
Wayne Roney gengur af velli í Svartfallalandi. Mynd/Nordic Photos/Getty
UEFA dæmdi enska landsliðsmanninn Wayne Rooney í þriggja leikja bann vegna brottreksturs hans á móti Svartfjallandi á dögunum. Rooney missir því af allri riðlakeppni Evrópumótsins næsta sumar.

Rooney hefur þrjá daga til að áfrýja þessum dómi en hann var þegar búinn að skrifa til aganefndar UEFA til að berjast fyrir vægum dómi. Það bréf hafði hinsvegar engin áhrif og er dómur Rooney mjög strangur.

Rooney fékk beint rautt spjald á 73. mínútu í 2-2 jafnteflinu út í Svartfjallandi á dögunum eftir að hafa sparkað aftan í Svartfellinginn Miodrag Dzudovic.

Nokkrum dögum áður hafi faðir Rooney verið handtekinn grunaður um að vera einn af þeim sem skipulögðu veðmálasvindl í kringum leik Motherwell og Hearts í skosku úrvalsdeildinni.

Enska landsliðið tryggði sér sæti í úrslitakeppni EM næsta sumar með þessu jafntefli en þetta var síðasti leikur enska liðsins í undankeppninni sem þýðir að Rooney tekur út allt leikbannið sitt í úrslitakeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×