Fótbolti

Alan Shearer myndi taka Rooney með á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Phil Jones hughreystir hér Wayne Rooney eftir að rauða spjaldið var farið á loft.
Phil Jones hughreystir hér Wayne Rooney eftir að rauða spjaldið var farið á loft. Mynd/Nordic Photos/Getty
Alan Shearer, fyrrum fyrirliði enska landsliðsins, er á því að Fabio Capello, þjálfari enska landsliðsins, eigi að velja Wayne Rooney í lokahópinn sinn fyrir Evrópumótið í Úkraínu og Póllandi þótt að enski framherjinn verði í banni í öllum þremur leikjum riðlakeppninnar.

Rooney verður ekki löglegur fyrr en í átta liða úrslitum keppninnar og því vekur það upp spurningar um hvort ítalski þjálfarinn verði ekki bara að skilja hann eftir heima. Shearer er hinsvegar ekki sammála því.

Shearer tjáði sig um málið í viðtalið við Alistair Magowan hjá BBC en þar talar hann einnig um að leikbann Rooney væri frábært tækifæri fyrir framherja eins og þá Darren Bent, Andy Carroll, Bobby Zamora og Danny Welbeck.

Nýjustu fréttir úr herbúðum Rooney eru þær að hann sé í sjokki og mjög vonsvikinn út í dóm aganefndar UEFA og að hann muni styðja hugsanlega áfrýjun enska sambandsins.

Rooney fékk þriggja leikja bann fyrir beint rautt spjald sem hann fékk á 73. mínútu í 2-2 jafnteflinu út í Svartfjallandi á dögunum. Rooney missti þá stjórn á sér og sparkaði aftan í Svartfellinginn Miodrag Dzudovic.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×