Innlent

Flytja inn sement í stað þess að framleiða

Árið 2011 verður að öllum líkindum söluminnsta árið í 53 ára sögu verksmiðjunnar.Fréttablaðið/GVA
Árið 2011 verður að öllum líkindum söluminnsta árið í 53 ára sögu verksmiðjunnar.Fréttablaðið/GVA
Sementsverksmiðjan á Akranesi mun brátt hætta eigin framleiðslu breytist aðstæður á markaði fyrirtækisins ekki verulega á næstunni. Það hefði óhjákvæmilega í för með sér fækkun starfa hjá fyrirtækinu, að því er segir í fréttatilkynningu frá verksmiðjunni.

Í tilkynningunni segir að gríðarlegur samdráttur hafi orðið í sölu sements síðustu ár. Þá sé enn mikil óvissa um stöðu og horfur í byggingariðnaði. Verksmiðjan muni því flytja inn sement frá norska framleiðandanum Norcem AS í stað þess að framleiða það sjálf. Norcem AS er einn af eigendum verksmiðjunnar en til stendur að flytja sementið frá Noregi til hafna á Akranesi og Akureyri.

Þá kemur enn fremur fram í tilkynningunni að gripið hafi verið til margvíslegra aðgerða og skipulagsbreytinga með það að markmiði að framleiðslu yrði haldið áfram. Þær aðgerðir hafi hins vegar ekki dugað til og því verði framleiðslu hætt að öðru óbreyttu.

Sementsverksmiðjan á von á því að sementssala verði um 30 þúsund tonn á þessu ári og verður árið þá það söluminnsta í áratuga sögu starfseminnar. Þá er lagerrými verksmiðjunnar fullt þrátt fyrir að hún hafi einungis framleitt sement í þrjá mánuði á árinu.- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×