Fótbolti

Lionel Messi vann Gullbolta FIFA - kosinn sá besti í heimi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi.
Lionel Messi. Mynd/AP

Argentínumaðurinn Lionel Messi, leikmaður spænska liðsins Barcelona, var í kvöld kosinn besti knattspyrnumaður heims og hlaut að launum Gullbolta FIFA.

Messi var tilnefndur ásamt félögum sínum í Barcelona-liðinu, Xavi og Andrés Iniesta og bjuggust flestir við að annarhvort spænski heimsmeistarinn yrði fyrir valin en svo varð ekki raunin.

FIFA og franska blaðið France Football sameinuðu árleg verðlaun sín fyrir kjörið í ár en Lionel Messi var handhafi beggja verðlauna, frá því á árinu 2009.

Hann er sá fyrsti til að vera kosinn besti knattspyrnumaður heims hjá FIFA tvö ár í röð síðan að Brasilíumaðurinn Ronaldinho var kosinn 2004 og 2005. Marco van Basten er sá síðasti sem vann Gullboltann tvö ár í röð en hann var efstur í kjöri France Football 1988 og 1989.

Messi fékk 22,65 prósent atkvæða en Andres Iniesta varð í 2. sæti með 17,36 prósent atkvæða og Xavi fékk síðann 16,48 prósent atkvæða í þriðja sætinu. Xavi varð í 3. sæti annað árið í röð.

Brasilíska knattspyrnukonan Marta var kosin besta knattspyrnukona heims, Jose Mourinho var valinn þjálfari ársins hjá körlunum og Silvia Neid, þjálfari þýska kvennalandsliðsins, var valin besti þjálfarinn hjá konunum.

Tyrkinn Hamit Altintop skoraði flottasta mark ársins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×