Fótbolti

Hiddink mun virða samning sinn við Tyrki

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Guus Hiddink á hliðarlínunni hjá Tyrkjunum
Guus Hiddink á hliðarlínunni hjá Tyrkjunum Mynd/Getty Images
Umboðsmaður Guus Hiddink, þjálfara tyrkneska landsliðsins í knattspyrnu, segir ekkert hæft í þeim sögusögnum að þjálfarinn sé á leiðinni til Chelsea. Talsmaður tyrkneska knattspyrnusambandsins, Turker Tozar, er sama sinnis að sögn Sky fréttamiðilsins.

„Herra Hiddink er í fríi um þessar mundir og sömu sögu er að segja um forseta knattspyrnusambandsins. Það gerist ekkert á meðan," sagði Tozar.

Ýmsir fjölmiðlar hafa talið sig hafa heimildir fyrir því að Hiddink myndi rifta samningi sínum við Tyrkina til þess að taka við Chelsea á nýjan leik. Þær heimildir virðast úr lausu lofti gripnar samkvæmt þessu.

„Hiddink hefur skildum að gegna út samninginn sem klárast í júní á næsta ári. Það höfum við sagt í margar vikur. Fjölmargir eru að spinna sínar eigin sögur en raunveruleikinn er þessi," sagði umboðsmaður Hiddink.

Tyrkir gerðu jafntefli gegn Belgum í undankeppni EM 2012 um helgina. Liðið er átta stigum á eftir Þjóðverjum og einu á eftir Belgum í kapphlaupinu um sæti í lokakeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×