Chelsea tilkynnti í dag að félagið hefði fest kaup á hinum tvítuga Ulises Davila frá Chivas Guadalajara í Mexíkó.
Davila er miðvallarleikmaður og skrifaði undir fimm ára samning við Chelsea.
Andre Villas-Boas, stjóri Chelsea, hefur verið duglegur við að ná í unga leikmenn í sumar. Hann keypti þá Oriol Romeu, Romelu Lukaku og Thibaut Courtois fyrr í sumar og hefur nú bætt Davila í þann hóp.
„Mörg stór félög hafa fylgst náið með Ulises að undanförnu og hann hefur tekið miklum framförum á þeim mótum sem við höfum séð hann spila á,“ sagði Michael Emenalo, tæknistjóri Chelsea, í viðtali á heimasíðu félagsins.
„Chivas er frábært félag sem hefur alið upp marga frábæra knattspyrnumenn í gegnum tíðina. Við erum handvissir um að Ulises verði fljótlega orðinn lykilmaður í aðalliði Chelsea.“
Þess má geta að Manchester United keypti Javier Hernandez frá sama félagi fyrir rúmu ári síðan.

