Enski boltinn

Sir Alex Ferguson: United-liðið verður bara betra

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United hitti Roy Hodgson, stjóra Liverpool, á leik á dögunum.
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United hitti Roy Hodgson, stjóra Liverpool, á leik á dögunum. Mynd/AP
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, var ánægður með sigur liðsins á Stoke í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi og varaði hin liðin í toppbaráttunni við því að United-liðið ætti bara eftir að vera betra eftir því sem líður á tímabilið.

Manchester United hefur ekki tapað leik á þessu tímabili og er með þriggja stiga forskot á Manchester City fyrir leiki kvöldsins en nágrannar þeirra heimsækja Arsenal seinna í kvöld. United er jafnframt með níu stiga forskot á Chelsea sem spilar einnig í kvöld.

„Þegar nýtt ár er gengið í garð þá hefur maður alltaf góða mynd af því hvar liðið mun vera í lok tímabilsins," sagði Sir Alex Ferguson og bætti við: „Sagan segir að við spilum alltaf betur á seinni hluta tímabilsins og viðeflumst bara við það þegar leikirnir verða stærri. United-liðið á því bara eftir að verða betra," sagði Ferguson.

United vann Stoke án landsliðsmannanna Wayne Rooney og Rio Ferdinand og Sir Alex segir sína menn hafa fengið ósanngjarna gagnrýni á tímabilinu.

„Það er auðvelt að gagnrýna okkur en við hlustum ekkert á það en einbeitum okkur bara að okkar markmiðum sem er að vinna enska meistaratitilinn í vor," sagði Ferguson. Takist það verður Manchester United fyrsta félagið til þess að vinna enska meistaratitilinn nítján sinnum og bætir um leið met sitt og Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×