Enski boltinn

Kuyt: Þurfum að verjast betur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dirk Kuyt fagnar marki í leik með Liverpool fyrr í sumar.
Dirk Kuyt fagnar marki í leik með Liverpool fyrr í sumar. Nordic Photos / AFP
Dirk Kuyt, leikmaður Liverpool, hefur ekki áhyggjur af gengi liðsins nú á undirbúningstímabilinu en viðurkennir að liðið þurfi að verjast betur.

Liverpool gerði í gær 3-3 jafntefli við norska liðið Vålerenga en liðið tapaði 3-0 fyrir bæði Hull City og Galatasaray í síðasta mánuði.

„Við höfum verið að fá of mikið af mörkum á okkur en heila málið er að við þurfum að verjast sem liðsheild,“ sagði Kuyt í viðtali á heimasíðu Liverpool. „Það byrjar á fremsta manni og er þetta eitthvað sem við þurfum að bæta. Við höfum getuna og hæfileikana en þurfum að æfa af krafti.“

Liverpool mætir næst Valencia á laugardaginn áður en liðið mætir Sunderland í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar þann 13. ágúst.

„Við fáum einn leik til viðbótar til að laga þetta. Ef við stöndum okkur aðeins betur í þeim leik hef ég ekki miklar áhyggjur af leiknum gegn Sunderland.“

„Þetta er jú undirbúningstímabil. Ef okkur tekst að vinna Sunderland í fyrsta leik tímabilsins þá þýðir það að undirbúningstímabilið hafi verið vel heppnað.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×