Íslenski boltinn

Rúnar: Ég veit hvar við erum staddir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rúnari Kristinssyni, þjálfara KR, tókst ekki að koma sínum mönnum í úrslitaleikinn í Lengjubikar karla í fótbolta í gær en KR tapaði þá 0-1 fyrir Fylki í undanúrslitaleik liðanna á Fylkisvellinum.

„Það er alltaf sárt að tapa því maður fer í leikina til þess að vinna. Þegar maður tapar þá er maður vitanlega ósáttur," sagði Rúnar Kristinsson í viðtali við Eirík Stefán Ásgeirsson eftir leikinn. Það var Ingimundur Níels Óskarsson sem skoraði sigurmarkið í byrjun seinni hálfleiks.

„Spilamennskan hjá mínu liði var ekkert sérstök frekar en hjá Fylkismönnum. Veðrið og aðstæðurnar buðu ekki upp á mikið enda var skítakuldi og rok. Það gerði leikmönnum beggja liða mjög erfitt fyrir. Það sást ekki mikið af fínu spili og þetta einkenndist meira af baráttu. Fylkismenn voru sterkari þar," sagði Rúnar.

„Ég hef fína tilfinningu fyrir mínu liði og ég veit hvar við erum staddir. Við erum búnir að æfa vel og mínir menn eru tilbúnir í slaginn. Ég hef því fína tilfinningu fyrir þessu móti sem er framundan," sagði Rúnar.

„KR ætlar alltaf að vera inn á topp þremur á hverju ári því við ætlum okkur að vera í Evrópukeppni ár eftir ár. Það breytist ekkert. KR er og verður alltaf KR og KR-ingar vilja alltaf vera á toppnum," sagði Rúnar en það má sjá allt viðtalið með því að smella hér fyrir ofan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×