Enski boltinn

Enn fær Liverpool þrjú mörk á sig

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Liverpool lenti í kröppum dansi gegn varaliði Vålerenga í æfingaleik liðanna í dag. Leiknum lauk með 3-3 jafntefli en þjú mörk voru skoruð á síðustu sjö mínútum leiksins.

Lars Iver Strand kom Vålerenga yfir á 13. mínútu og Fegor Ogude bætti öðru marki við aðeins sex mínútum síðar úr vítaspyrnu. Andy Carroll minnkaði muninn tveim mínútum fyrir leikhlé eftir sendingu frá Stewart Downing sem var í byrjunarliði Liverpool í fyrsta sinn líkt og Jordan Henderson.

Vålerenga hélt forystu sinni allt þar til Aquilani kom inná. Ítalinn tók hornspyrnur á 83. og 88. mínútu og í bæði skiptin var Daniel Agger réttur maður á réttum stað í vítateignum til að koma boltanum yfir marklínuna og skyndilega var Liverpool komið yfir.

Liverpool hefur fengið þrjú mörk á sig í síðustu tveimur æfingaleikjum og sú varð einnig raunin nú því Mohammed Fellah jafnaði metin þegar tvær mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma og jafntefli staðreynd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×