Enski boltinn

Hernandez á sjúkrahús eftir að hafa fengið höfuðhögg á æfingu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Javier Hernandez og Wayne Rooney.
Javier Hernandez og Wayne Rooney. Mynd/Nordic Photos/Getty
Javier Hernandez, framherji Manchester United, endaði á sjúkrahúsi eftir æfingu liðsins á Red Bull Arena í New Jersey í gær. Hernandez er nýkominn til móts við liðið eftir að hafa fengið aukafrí vegna þátttöku sinnar í Copa America með landsliði Mexíkó.

Javier Hernandez, sem er 23 ára, sló í gegn á síðasta tímabili, sínu fyrsta með United, þar sem hann skoraði 20 mörk og mörg þeirra voru afar mikilvæg.

United-menn sendu frá sér tilkynningu í kvöld þar sem sagt var frá því að

Chicharito hafi fengið heilahristing á æfingu liðsins í gær og hafi í kjölfarið verið fluttur á sjúkrahús til að gæta fyllsta öryggis.

United mætir Stjörnuliði MLS-deildarinnar í kvöld og það er ljóst að Mexíkómaðurinn verður ekki með í þeim leik. Það kom ekki fram í fréttatilkynningunni frá United hversu lengi Chicharito yrði frá. Hann missir samt þó líklega af leiknum við Barcelona um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×