Enski boltinn

Larsson tryggði Sunderland dramatískan sigur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Sebastian Larsson var hetja Sunderland þegar hann tryggði liði sínu 2-1 sigur á Blackburn í ensku úrvalsdeildinni í dag. Sigurmarkið kom beint úr aukaspyrnu í uppbótartíma.

Simon Vukcevic kom Blackburn yfir strax á sautjándu mínútu leiksins og höfðu gestirnir forystu í leiknum allt þar til á 84. mínútu er David Vaughan jafnaði metin fyrir Sunderland.

Sunderland fékk svo aukaspyrnu rétt utan vítateigs í uppbótartíma og Larsson, sem er frábær spyrnumaður, setti boltann yfir varnarvegginn í markhornið nær - stöngina og inn.

Larsson klúðraði vítaspyrnu um síðustu helgi en þá tapaði Sunderland fyrir Wolves, 2-1.

Þetta var fyrsti leikur liðsins sem Martin O'Neill stýrir Sunderland en hann tók nýverið við liðinu af Steve Bruce. Þetta er fyrsti sigur liðsins síðan í lok október en liðið komst upp úr fallsæti með sigrinum og er nú í sextánda sæti með fjórtán stig.

Blackburn er hins vegar enn í fallsæti en liðið er með tíu stig í nítjánda og næstneðsta sæti. Liðið vann góðan 4-2 sigur á Swansea í síðustu umferð en annars hefur allt gengið hjá afturfótunum hjá Steve Kean og hans mönnum. Hvort að Kean haldi starfi sínu mikið lengur er óvíst.

Til að bæta gráu á svart þurfti að bera Jason Lowe, leikmann Blackburn, meiddan af velli eftir slæmt samstuð við Larsson í blálok leiksins. Þá nokkur töf var á leiknum vegna þessa og virtist Lowe nokkuð illa slasaður.

Vuckevic skoraði með skalla af stuttu færi eftir að Keiren Westwood varði frá Christopher Samba. Sunderland fékk þó fullt af fínum færum í fyrri hálfleik og stýrði leiknum lengst af í þeim síðari.

Það bar loks árangur þegar sex mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma og Vaughan skoraði með föstu skoti rétt utan vítateigs en Paul Robinson, sem átti annars góðan leik, átti ekki möguleika á að verja. Sunderland skoraði svo sigurmarkið í uppbótartíma, sem fyrr segir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×