Enski boltinn

Leikmannasamtökin hafa áhyggjur af kærunni á Babel

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ryan Babel í leiknum umrædda á móti Manchester United.
Ryan Babel í leiknum umrædda á móti Manchester United. Mynd/AFP
Gordon Taylor, formaður leikmannasamtakanna í Englandi, segir að leikmenn verði að fá að hafa málfrelsi og möguleika á því að geta tjáð sig á samskiptasíðum. Taylor tjáði sig um kæru enska sambandsins á Liverpool-manninum Ryan Babel sem birti mynd af dómaranum Howard Webb á twitter-síðu sinni eftir bikartapið á sunnudaginn.

„Leikmenn eru stundum gagnrýndir fyrir það að gefa ekkert af sér í viðtölum og nú er Ryan Babel kominn í vandræði fyrir að hafa skoðun," sagði Gordon Taylor í viðtali við Reuters.

„Leikmennirnir eru í raun á milli steins og sleggju og þeir geta ekki unnið þessa baráttu. Sambandið er að reyna að verja dómara sína en góðlátleg stríðni og ólíkar skoðanir eru bara hluti af leiknum," sagði Taylor.

Babel var mjög ósáttur við dómgæslu Howard Webb í bikarleiknum á móti Manchester United í gær en Webb dæmdi víti á Liverpool á fyrstu mínutu leiksins og rak síðan fyrirliðanna Steven Gerrard af velli eftir hálftíma leik. Babel setti myndina inn skömmu eftir leikinn.

„Og þeir segja að hann sé einn besta dómarann. Það er brandari," skrifaði Babel undir myndina. Babel fjarlægði síðan færsluna og bað Webb afsökunar.

„Það að hann skildi hafa beðist afsökunar strax og sagt að hann hafi bara hugsað þetta sem góðlátlega stríðni er næg ástæða að mínu mati til að fá bara viðvörun. Sambandið er hinsvegar eflaust að reyna að sjá til þess að svona mál komi ekki aftur upp," sagði Taylor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×