Enski boltinn

Tottenham búið að semja við Pienaar - kemur líklega ekki fyrr en í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steven Pienaar í leik með Everton á móti Tottenham.
Steven Pienaar í leik með Everton á móti Tottenham. Mynd/AP
Tottenham er búið að semja við Suður-Afríkumanninn Steven Pienaar sem hefur spilað undanfarin þrjú ár með Everton. Internazionale og Atlético Madrid voru líka áhugasöm um leikmanninn sem kemur líklega á frjálsri sölu næsta sumar.

Tottenham er tilbúið að borga Steven Pienaar 70 þúsund pund í vikulaun næstu fjögur árin en það gerir um þrettán milljónir íslenskra króna á viku. Tottenham gæti fengið Pienaar strax en þyrfti þá að borga Everton í kringum tvær milljónir punda.

Pienaar er 28 ára miðjumaður sem spilar vanalega á miðri miðjunni en getur einnig leyst af Aaron Lennon á hægri kantinum. Pienaar lék með Ajax í Hollandi og með Borussia Dortmund í Þýsklandi áður en hann kom til Everton.

Everton er búið að bjóða Pienaar nýjan samning þar sem hann fengi 52 þúsund pund á viku en Suður-Afríkumaðurinn er ekki sáttur að fá svo mikið lægri laun en Spánverjinn Mikel Arteta. Arteta skrifaði nýverið undir nýjan samning þar sem að hann fær 75 þúsund pund í vikulaun.

David Moyes, stjóri Everton, vill halda Pienaar út tímabilið en gæti þurft að selja leikmann ef að hann ætlar að næla í einhverja leikmenn á lánssamningi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×