Fótbolti

Andri: Langlíklegast að Kolbeinn fari til Ajax á næstu dögum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kolbeinn Sigþórsson í leik með íslenska U-21 landsliðinu.
Kolbeinn Sigþórsson í leik með íslenska U-21 landsliðinu. Mynd/Anton
Andri Sigþórsson, bróðir og umboðsmaður Kolbeins Sigþórssonar, segir það ekki rétt sem komið hefur fram í hollenskum fjölmiðlum að líklegast sé að Kolbeinn verði áfram hjá AZ. Þvert á móti hafi Ajax lagt fram nýtt tilboð og langlíklegast að Kolbeinn fari til félagsins á allra næstu dögum.

Fullyrt var að Ajax hafi ekki viljað greiða þær fimm milljónir evra sem AZ vill fá fyrir Kolbein en Andri segir að forráðamenn Ajax hafi nú teygt sig ansi nálægt því sem AZ vill fá fyrir kappann.

„Ég held að Ajax hafi nýlega hækkað tilboð sitt í Kolbein og upphæðin mun vera mjög nálægt því sem AZ er að biðja um. Ég get þó ekkert staðfest neinar upphæðir í þessum efnum,“ sagði Andri í samtali við Vísi.

„En ég reikna með að þetta verði komið í hús á allra næstu dögum og hann verði leikmaður Ajax. Ég er vongóður en þó er fyrst á dagskrá að liðin nái saman.“

„Þetta er því alls ekki búið að langt í frá. Ajax vill fá Kolbein og Kolbeinn vill fara til félagsins. Hann á eitt ár eftir af samningi sínum við AZ sem þýðir að hann getur samið við nýtt lið eftir aðeins hálft ár. Það væri ekki gáfulegt hjá AZ að selja hann ekki nú.“

„Það eru því langmestar líkur á því að hann fari til Ajax.“


Tengdar fréttir

Ólíklegt að Kolbeinn fari til Ajax í sumar

Hollenskir fjölmiðlar segja það ólíklegt að Kolbeinn Sigþórsson muni ganga til liðs við hollenska félagið Ajax nú í sumar. Félagið vilji ekki greiða þær fimm milljónir evra sem AZ Alkmaar vill fá fyrir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×