Fótbolti

Pele: Messi verður að skora meira en ég

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Santos varð Suður-Ameríkumeistari félagsliða á dögunum og var Pele mættur til að taka þátt í fögnuði síns gamla félags.
Santos varð Suður-Ameríkumeistari félagsliða á dögunum og var Pele mættur til að taka þátt í fögnuði síns gamla félags. Mynd/AP
Brasilíumaðurinn Pele segir að Lionel Messi verði að skora meira en 1283 mörk á ferlinum til að geta talist betri leikmaður en hann sjálfur var.

Messi er í dag talinn besti knattspyrnumaður heims enda átti hann ótrúlegt tímabil með Barcelona þar sem hann varð bæði spænskur meistari og Evrópumeistari með liðinu. Skoraði hann 31 mark í deildinni og tólf í Meistaradeildinni.

„Messi betri en Pele? Til þess verður hann að skora meira en 1283 mörk,“ sagði Pele sem skoraði einmitt 1283 mörk á ferlinum.

Neymar, leikmaður Santos í Brasilíu, hefur einnig verið sagður hinn nýi Pele. „Neymar er mjög hæfileikaríkur. Ég vona að Neymar verði ekki eins og Messi - sem spilar frábærlega með félagsliði sínu en getur svo ekkert í landsleikjum með Argentínu,“ sagði Pele.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×