Fótbolti

Suður-kóreskir knattspyrnumenn þurfa að gangast undir lygapróf

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nordic Photos/AFP
Knattspyrnuyfirvöld í Suður-Kóreu ætla að notast við lygapróf til þess að berjast gegn spillingu sem skekið hefur íþróttina. Þá hefur verið ákveðið að hækka lágmarkslaun leikmanna í deildinni.

Forsvarmenn K-deildarinnar eiga í miklum vanda. Nú þegar hafa tíu leikmenn verið dæmdir í ævilangt keppnisbann auk þess sem 46 leikmenn og ellefu veðbankamiðlarar hafa verið ákærðir. Málið nær til sex félaga í K-deildinni.

Héðan í frá verða allir leikmenn grunaðir um að hagræða úrslitum látnir gangast undir lygapróf. Þá verða allir leikmenn deildarinnar skikkaðir til þess að sitja fyrirlestra um málið. Skyldumæting er á fyrirlestrana og fjarverandi leikmenn verða settir í leikbann.

Þá hefur verið ákveðið að tvöfalda lágmarkslaun leikmanna í deildinni. Árslaun leikmanna nú er um 11,000 dollarar eða sem svarar 1,3 milljónum íslenskra króna. Meðallaun í landinu eru um helmingi hærri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×