Fótbolti

53 knattspyrnustrákar í Bangladesh létu lífið í rútuslysi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Myndin tengist fréttinni ekki beint
Myndin tengist fréttinni ekki beint Nordic Photos/AFP
Rúta með um áttatíu drengi innanborðs fór út af fjallvegi í Bangladesh á mánudaginn með þeim afleiðingum að 53 létust. Drengirnir voru á heimleið úr knattspyrnuleik þar sem liðið hafði unnið sigur á öðrum grunnskóla.

Slysið átti sér stað á Mirersarai-svæðinu um 240 kílómetra suðaustur af höfuðborginni Dhaka. Að sögn þeirra sem lifðu slysið af var mikil stemmning í rútunni, sungið og dansað, enda drengirnir í skýjunum með sigur sinn.

Auk þeirra látnu voru fimmtán fluttir á spítala og er talið að tíu þeirra séu í lífshættulegu ástandi.

Að sögn lögreglu lét faðir eins drengsins lífið á spítalanum þegar hann sá líkið af syni sínum. Hann fékk hjartaáfall.

Að sögn Reuters-fréttastofunnar eru umferðarslys algeng í Bangladesh sökum slæmra vega, bifreiða í bágu ástandi og umferðarlaga sem er sjaldan fylgt eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×