Fótbolti

Santos er Suður-Ameríkumeistari

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/AP
Brasilíska félagið Santos varð í nótt Suður-Ameríkumeistari í knattspyrnu eftir sigur á Penarol frá Úrúgvæ í úrslitum Copa Libertadores.

Fyrri úrslitaleik liðanna lauk með markalausu jafntefli í Montevideo, höfuðborg Úrúgvæ, en Santos vann síðari leik liðanna á heimavelli, 2-1, í nótt.

Hinn nítján ára gamli Neymar, sem hefur verið sterklega orðaður við Chelsea, skoraði fyrra mark Santos en Danilo það síðara. Durval skoraði svo sjálfsmark og minnkaði muninn fyrir Penarol en þar við sat.

Goðsögnin Pele, fyrrum leikmaður Santos, var á meðal áhorfenda og fagnaði mjög í leikslok. Þetta er aðeins í þriðja sinn sem Santos vinnur þessa keppni en Santos varð meistari tvö ár í röð, árin 1962 og 1963. Pele var lykilmaður í liði Santos í bæði skiptin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×