Fótbolti

Kewell ekki valinn í landsliðið - Lucas Neill til Al Jazira

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kewell og Neill mótmæla rauða spjaldi Kewell á HM 2010 í Suður-Afríku.
Kewell og Neill mótmæla rauða spjaldi Kewell á HM 2010 í Suður-Afríku. Nordic Photos/AFP
Harry Kewell var ekki valinn í landsliðshóp Ástrala fyrir leikina gegn Tælandi og Sádi-Arabíu í undankeppni HM 2014 í byrjun september.

Kewell, sem nýverið gekk til liðs við Melbourne Victory, er þó ekki úr myndinni hjá Holger Osieck þjálfara liðsins.

„Hann er hraustur en það er stórt bil á milli þess að vera hraustur og vera í leikformi," sagði Osieck.

Lucas Neill, fyrirliði Ástrala, er í landsliðshópnum en hann hefur skrifað undir samning við Al Jazira í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

„Ákvörðunin er hluti af þriggja ára plani með markmið um að komast í það minnsta í næstu heimsmeistarakeppni," sagði Neill.

Neill kom á frjálsri sölu frá tyrkneska félaginu Galatasaray.

„Ég þurfti að taka tilboði sem hentaði fjölskyldunni, hentaði líkama mínum en væri jafnframt metnaðarfullt svo ég geti staðið mig sem fyrirliði landsliðs Ástralíu," sagði Neill.

Meðal þekktra leikmanna Al Jazira í gegnum tíðina eru George Weah og Philip Cocu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×