Enski boltinn

Wenger hættir aðeins ef hann stendur sig ekki

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Arsene Wenger, stjóri Arsenal.
Arsene Wenger, stjóri Arsenal. Nordic Photos / Getty Images
Arsene Wenger útskýrði ummæli sín sem hann lét falla í viðtali við franska blaðið L'Equipe í gær og segir að hann sé enn með hugann við að stýra Arsenal.

Wenger sagði í viðtalinu að hann myndi íhuga framtíð sína vandlega í sumar. Hann var svo spurður nánar út í ummælin eftir 2-1 sigur sinna manna á Norwich í gær.

„Ég sagði að ég myndi aðeins hætta ef ég myndi ekki standa mig eins vel og væntingar stæðu til," sagði Wenger við enska fjölmiðla í gær. „Ef mér finnst að það verði ekki tilfellið þegar að tímabilinu lýkur næsta vor verð ég að íhuga mína stöðu."

„Ég hef fullan hug á því að gera mitt allra besta og ég mun virða samninginn minn þar til hann rennur út, nema að mér finnist að ég hafi ekki verið nógu góður í mínu starfi," bætti Wenger við en núverandi samningur hans rennur út árið 2014.

„Ég verð að vera hreinskilinn og meta mína frammistöðu. Náði ég því besta úr mínum leikmönnum? Ég hef verið hér í fimmtán ár og verð að meta mína stöðu af hlutleysi."

Hann segir það alrangt að hann hafi látið sögusagnir um að franska félagið Paris Saint-Germain vilji fá hann til starfa hafa áhrif á sig og segist ætla að virða samning sinn við Arsenal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×