Enski boltinn

Tevez væntanlegur aftur til Englands á næstum dögum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Carlos Tevez í leik með Manchester City.
Carlos Tevez í leik með Manchester City. Nordic Photos / Getty Images
Enska dagblaðið The Guardian staðhæfir í dag að Carlos Tevez sé aftur væntanlegur til Englands innan fárra daga eftir að hafa farið í leyfisleysi til Argentínu fyrir tæpum tveimur vikum síðan.

Samkvæmt heimildum blaðsins hefur Tevez ekki í hyggju að biðja Roberto Mancini, stjóra Manchester City, afsökunar en það hefur gengið á ýmsu hjá þeim tveimur síðustu vikur og mánuði.

Tevez lýsti því yfir fyrr á þessu ári að hann vildi fara frá félaginu þar sem hann væri óánægður í Manchester. Þó tókst ekki að selja hann í sumar og fékk hann lítið að spila í haust og yfirleitt notaður sem varamaður í leikjum City.

Svo neitaði hann að koma inn á sem varamaður í leik með City í Meistaradeild Evrópu og sagði Mancini eftir leikinn að Tevez myndi aldrei spila undir hans stjórn hjá félaginu á ný. Tevez var vikið tímabundið frá störfum og sektaður um tveggja vikna laun.

Eftir það sagði Mancini að Tevez ætti möguleika á að fá að spila á ný ef hann myndi bijðast afsökunar. En þess í stað ákvað Tevez að fara til Argentínu, án leyfis félagsins, þegar að landsleikjafríið hófst fyrir tæpum tveimur vikum.

Mancini sagði svo fyrir helgi að hann efaðist um að Tevez myndi spila aftur með félaginu. Talið er langlíklegast að hann fari annað í janúar og hefur hann helst verið orðaður við AC Milan og Inter á Ítalíu. Þó er ekki hægt að útiloka að hann gangi til liðs við annað félag í Englandi.

Þá er einnig talið í myndinni að hann fari til brasilíska liðsins Corinthians, sem hann var næstum genginn til liðs við í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×