Fótbolti

Þýskaland setti met með 17-0 sigri á Kasökum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þjóðverjar fagna einu sautján marka sinna gegn Kasakstan í gær.
Þjóðverjar fagna einu sautján marka sinna gegn Kasakstan í gær. Nordic Photos / Bongarts
Þýska kvennalandsliðið í knattspyrnu er eitt það sterkasta í heimi og það sýndi mátt sinn og megin með 17-0 sigri á Kasakstan í undankeppni EM 2013 í gær.

Þjóðverjar hafa verið með gríðarlega yfiirburði gegn andstæðingum sínum í undankeppnum stórmóta í gegnum árin og unnið alla sína leiki í undankeppnum síðan 1999.

Þær Celia Okoyino da Mbabi og Alexandra Popp skoruðu fjögur mörk hvor í leiknum í gær og Babett Peter skoraði þrennu. Da Mbabi skoraði mörkin sín fjögur á fyrstu sextán mínútum leiksins.

Gamla metið var 13-0 sigur á Portúgal árið 2003 en með sigrinum í gær bættist Þýskaland í hóp með Spáni og Noregi sem höfðu einnig unnið leiki með þessum sömu tölum, 17-0 - Spánn gegn Slóveníu árið 1994 og Noregur gegn Slóvakíu ári síðar.

Þýskaland og Spánn eru bæði með fullt hús stiga eftir þrjá leiki í 2. riðli undankeppninnar en liðin mætast næstkomandi fimmtudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×