Enski boltinn

Johnson tryggði Liverpool sigur á Chelsea

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rodriguez fagnar marki sínu í dag.
Rodriguez fagnar marki sínu í dag. Nordic Photos / Getty Images
Glen Johnson var hetja Liverpool er hann tryggði liðinu 2-1 sigur á Chelsea í stórleik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni.

Sigurmarkið kom þegar skammt var til leiksloka en Maxi Rodriguez hafði komið Liverpool yfir í fyrri hálfleik. Daniel Sturridge jafnaði metin í upphafi þess síðari og heimamenn gerðu sig líklega til að taka leikinn algerlega yfir.

En þá var komið að Johnson sem prjónaði sig í gegnum slaka vörn Chelsea og skoraði sigurmarkið dýrmæta. Með sigrinum komst Liverpool í 22 stig, jafn mörg og Tottenham, Chelsea og Arsenal.

Chelsea er með besta markahlutfallið af þessum fjórum liðum en Tottenham á þó tvo leiki til góða. Manchester City er á toppnum með 34 stig.

Andre-Villas Boas ákvað að byrja með fyrrum Liverpool-mennina Fernando Torres og Raul Mereiles á bekknum að þessu sinni en Didier Drogba var í fremstu víglínu.

Þá komst Andy Carroll, sem var keyptur til Liverpool eftir að félagið seldi Torres til Chelsea, ekki í byrjunarliði Liverpool. Þeir Craig Bellamy, Luis Suarez og Maxi Rodriguez leiddu framlínu liðsins í dag.

Leikurinn fór fjörlega af stað og greinilegt að hvorugt lið ætlaði að gefa tommu eftir. Juan Mata fékk fyrsta færi leiksins þegar að skot hans var varið af varnarmanninum Daniel Agger.

En gestirnir náðu líka að ógna marki Chelsea og mátti Petr Cech hafa sig allan við í markinu til að verja frá Johnson stuttu síðar.

Didier Drogba átti svo skot að marki sem virtist hafa hafnað í netinu. Stuðningsmenn og sjónarpsáhorfendur töldu að boltinn hafi farið inn en í raun fór hann fram hjá markinu.

Eftir því sem leið á leikinn varð greinilegt að varnarleikur Chelsea var ekki upp á sitt besta. Eftir rúmlega 30 mínútna leik kom fyrsta markið og kom það eftir afar laglegan samleik Liverpool-manna. Charlie Adam náði að hirða boltann af John Obi Mikel og þeir Bellamy og Suarez skiptust á nokkrum sendingum áður en Bellamy gaf á Rodriguez sem skoraði af öryggi úr góðri stöðu.

Liverpool fór inn í síðari hálfleikinn með 1-0 forystu en forysta þeirra rauðklæddu hefði auðveldlega getað verið meiri. Andre Villas-Boas reyndi að skerpa á sóknarleiknum með því að skipta Daniel Sturridge inn á fyrir John Mikel Obi og átti það eftir að bera árangur.

Chelsea sótti nokkuð stíft í upphafi seinni hálfleiksins. Drogba fékk gott skotfæri en hitti ekki markið en þegar tæpar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleiknum kom jöfnunarmarkið.

John Terry gerði vel þegar hann gaf boltann á Florent Malouda sem skaut föstu skoti fyrir mark gestanna. Þar var Sturridge mættur á fjarstöng og stýrði knettinum í netið.

Aðeins tveimur mínútum síðar var Chelsea afar nálægt því að komast yfir en Pepe Reina varði þá stórglæsilega eftir aukaspyrnu Didier Drogba sem Branislav Ivanovic hafði stýrt í markhornið.

Heimamenn reyndu að sækja áfram eftir þetta en bæði lið fengu ágæt færi undir lok leiksins. En það voru leikmenn Liverpool sem nýttu þau betur.

Þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum átti Charlie Adam glæsilega sendingu út á hægri kantinn þar sem bakvörðurinn Glen Johnson gerði sér lítið fyrir, keyrði inn í teiginn, framhjá Ashley Cole og afgreiddi knöttinn laglega í netið.

Þrátt fyrir öflugan sóknarleik Chelsea varð slakur varnarleikur liðinu að falli í dag. Heimamenn áttu líklega meira í leiknum í seinni hálfleik. Það var kannski hámark kaldhæðninnar að það var á endanum Glen Johnson, fyrrum leikmaður Chelsea, sem tryggði Liverpool sigurinn.

Torres og Meireles komu báðir inn á sem varamenn seint í leiknum en náðu ekki að setja mark sitt á leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×