Enski boltinn

Ancelotti: Ef Torres er heill gæti hann spilað gegn Liverpool

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Voru samherjar en mætast mögulega sem andstæðingar á sunnudaginn. Torres er lengst til vinstri en með honum á myndinni eru Steven Gerrard og Raul Meireles.
Voru samherjar en mætast mögulega sem andstæðingar á sunnudaginn. Torres er lengst til vinstri en með honum á myndinni eru Steven Gerrard og Raul Meireles. Mynd/AP

Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea, segir ef Fernando Torres komi vel út úr sínum fyrstu æfingum hjá Chelsea er ekkert því til fyrirstöðu að hann spili gegn Liverpool um helgina.

Torres gekk á mánudaginn í raðir Chelsea sem keypti hann á 50 milljónir punda frá Liverpool.

Hann var í þrjú og hálft ár hjá Liverpool og var í miklu uppáhaldi hjá stuðningsmönnum félagsins. En nú er líklegt að hans fyrsti leikur með Chelsea verði einmitt gegn Liverpool á sunnudaginn kemur.

„Við munum prófa hann í dag og á morgun og ef það gengur vandræðalaust fyrir sig gæti hann vel spilað gegn Liverpool," sagði Ancelotti við enska fjölmiðla.

„En ég á ekki von á að það verði nein vandamál þar sem að hann spilaði með Liverpool fyrir stuttu síðan og spilaði þá vel."

Líklegt er að Luis Suarez, sem Liverpool keypti frá Ajax á mánudaginn, muni taka stöðu Torres í fremstu víglínu liðsins á sunnudaginn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×