Enski boltinn

Blackpool vann Liverpool öðru sinni á tímabilinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gary Taylor-Fletcher skorar í kvöld.
Gary Taylor-Fletcher skorar í kvöld. Mynd/AP
Nýliðar Blackpool eru með fullt hús á móti Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í vetur eftir 2-1 sigur í leik liðanna á Bloomfield Road í kvöld. Liverpool hefur því tapað tveimur fyrstu leikjum sínum undir stjórn Kenny Dalglish og alls þremur leikjum í röð.

DJ Campbell tryggði Blackpool öll þrjú stigin með því að skora sigurmarkið með skalla á 69. mínútu leiksins. Leikmenn Blackpool spiluðu vel í leiknum og áttu sigurinn skilinn.

Liverpool fékk dramabyrjun í fyrsta deildarleiknum undir stjórn Kenny Dalglish þegar Fernando Torres kom liðinu í 1-0 eftir tæplega þriggja mínútna leik. Torres fékk þá flotta sendingu frá bakverðinum Martin Kelly og afgreiddi boltann laglega í netið.

Gary Taylor-Fletcher jafnaði leikinn á 12. mínútu eftir slæm varnarmistök frá Portúgalanum Raúl Meireles. Meireles sendi boltann beint á David Vaughan sem stakk honum inn fyrir á Taylor-Fletcher sem skoraði örugglega.

Blackpool vann líka 2-1 sigur í fyrri leiknum sem fram fór á Anfield í október en Blackpool komst í 2-0 í fyrri hálfleik í þeim leik. Blackpool komst upp í 9. sæti með þessum sigri en Liverpool er í 13. sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×