Fótbolti

Lennon í sex leikja bann

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Neil Lennon, stjóri Celtic.
Neil Lennon, stjóri Celtic. Nordic Photos / Getty Images

Skoska knattspyrnusambandið hefur dæmt Neil Lennon, stjóra Celtic, í sex leikja bann fyrir hegðun gagnvart dómurum í tapleik gegn Hearts í nóvember síðastliðnum.

Lennon var sendur upp í stúku í umræddum leik og fékk fyrir það sjálfkrafa tveggja leikja bann. Celtic ákvað að áfrýja því banni en því var svarað með því að þyngja refsingu Lennon í sex leikja bann.

Lennon reifst einnig við fjórða dómara leiksins en mikið hefur verið rætt um hegðun knattspyrnustjóra, leikmanna og áhorfenda gagnvart dómurum í Skotlandi eftir að síðastnefndi hópurinn ákvað að fara í verkfall um eina helgi fyrr í haust.

Forráðamenn Celtic eru afar ósáttir við úrskurðinn og lýsa yfir fullum stuðningi við Lennon. Þeir vilja að allt refsingakerfið verði tekið til endurskoðunar hjá skoska sambandinu.

Lennon mun missa af bikarleik Celtic gegn Rangers snemma í febrúar en næsti leikur sem hann má stýra verður einmitt gegn Rangers í deildinni þann 20. febrúar næstkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×