Enski boltinn

Liverpool sagt reiðubúið að greiða 10 milljónir punda fyrir táning

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kenny Dalglish, stjóri Liverpool.
Kenny Dalglish, stjóri Liverpool. Nordic Photos / Getty Images

Enska blaðið The Guardian heldur því fram í dag að Kenny Dalglish, stjóri Liverpool, sé byrjaður að horfa til framtíðar og að félagið sé að undirbúa tíu milljóna punda í sautján ára táning, Alex Oxlade-Chamberlain að nafni.

Oxlade-Chamberlain er sonur Mark Chamberlain, fyrrum leikmanns Stoke, Sheffield Wednesday, Portsmouth og enska landsliðsins, og spilar sem sóknartengiliður. Hann þykir vera jafnvel efnilegri en Theo Walcott var á sama aldri en báðir eru uppaldir hjá Southampton.

Walcott fór til Arsenal á sínum tíma og félagið mun vera helsti keppinautur Liverpool um Oxlade-Chamberlain nú.

Oxlade-Chamberlain hefur verið í byrjunarliði Southampton í fjórtán leikjum á tímabilinu og skorað alls sex mörk. Liðið leikur í ensku C-deildinni.

Hann lék sinn fyrsta leik með aðalliði Southampton í deildinni þann 2. mars síðastliðinn, þá sextán ára gamall. Hann varð þar með yngsti leikmaður félagsins í sögunni, á eftir Walcott. Hann skrifaði undir þriggja ára samning við Southampton á sautján ára afmælisdaginn sinn, þann 15. ágúst síðastliðinn.

Liverpool hefur ekki enn lagt fram tilboð í kappann en samkvæmt frétt blaðsins er talið líklegt að félagið sé reiðubúið að láta hann fara fyrir 10 milljónir punda.

Liverpool hefur gengið illa á leiktíðinni og er í tólfta sæti ensku úrvalsdeildarinnar sem stendur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×