Enski boltinn

Ipswich vann fyrri leikinn á móti Arsenal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jack Wilshere og Carlos Edwards í leiknum í kvöld.
Jack Wilshere og Carlos Edwards í leiknum í kvöld. Mynd/Nordic Photos/Getty
Enska b-deildarliðið Ipswich vann óvæntan 1-0 sigur á Arsenal í fyrri leik undanúrslitaleik liðanna í enska deildarbikarnum á Portman Road í kvöld. Ipswich hafði tapað 7-0 á móti Chelsea í enska bikarnum um síðustu helgi og er aðeins í 19. sæti í ensku b-deildinni með 8 sigra í fyrstu 24 leikjunum.

Paul Jewell, verðandi stjóri Ipswich, var í stúkunni en það var Ian McParland sem stjórnaði liðinu alveg eins og í stórtapinu á móti Chelsea á sunnudaginn var. Ian McParland tók tímabundið við liðinu þegar Roy Keane var rekinn.

Ungverjinn Tamas Priskin tryggði Ipswich sigurinn á 78. mínútu leiksins eftir að hann slapp einn í gegnum Arsenal-vörnina eftir langa sendingu frá Colin Healy. Priskin afgreiddi boltann fagmannlega framhjá Wojciech Szczesny i marki Arsenal.

Arsenal telfdi fram sterku liði í kvöld og komu sem dæmi þeir Jack Wilshere, Cesc Fabregas, Theo Walcott og Laurent Koscielny allir inn í liðið frá því bikarleiknum á móti Leeds um síðustu helgi.

Seinni leikur liðanna fer fram á Emirates-vellinum 25. janúar næstkomandi en í hinni viðureigninni vann West Ham 2-1 heimasigur á Birmingham í fyrri leiknum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×