Fótbolti

Santos segir ekki rétt að Barcelona hafi forkaupsrétt á Neymar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Neymar með Lionel Messi.
Neymar með Lionel Messi. Mynd/Nordic Photos/Getty
Forráðamenn Santos töldu sig tilneydda til þess að senda frá sér fréttatilkynningu þar sem fram kemur að Barcelona hafi ekki forkaupsrétt á brasilíska framherjanum Neymar.

Spænskir fjölmiðlar hafa verið að skrifa fréttir af því að félögin hafi komið sér saman um það að Barcelona fengi forkaupsréttinn á leikmanninum þegar hann kemur til Evrópu eftir HM 2014.

Barcelona vann 4-0 sigur á Santos í úrslitaleik Heimsmeistarakeppni félagsliða í Japan um síðustu helgi og þar hefði verið kjörið tækifæri hjá forráðamönnum félaganna að ræða aðeins málin.

„Eins og tilkynnt var 9. nóvember síðastliðinn þá mun Neymar vera hjá félaginu að minnsta kosti þangað til á HM 2014. Santos á samning hans að fullu og þar eru engin forkaupsréttindi hjá neinu félagi," segir í tilkynningu Santos.

Barcelona og Real Madrid eru bæði sögð hafa áhuga á leikmanninum þótt að hann hafi ekki sýnt mikið í úrslitaleiknum á móti Barcelona. Neymar er aðeins 19 ára og á framtíðina fyrir sér í boltanum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×