Fótbolti

Jóhann Berg: Eigum að taka þrjú stig gegn Kýpur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Osló skrifar
Jóhann Berg í baráttu við Erik Huseklepp í leiknum í gær.
Jóhann Berg í baráttu við Erik Huseklepp í leiknum í gær. Nordic Photos / AFP
Jóhann Berg Guðmundsson var vitanlega svekktur með niðurstöðuna eftir landsleik Noregs og Íslands í Osló í gær en heimamenn fögnuðu þar 1-0 sigri.

Sigurmarkið kom úr vítaspyrnu á 88. mínútu og segir Jóhann að það hafi verið erfitt.

„Það er alveg hrikalega erfitt að kyngja þessu tapi. Við vorum bara nokkuð þéttir og markið lá alls ekki í loftinu þegar þeir skoruðu,“ sagði Jóhann Berg við Vísi eftir leikinn í gær. „Auðvitað voru þeir meira með boltann en þeir voru ekki búnir að skapa sér mikið af færum.“

Hann segir að íslenska liðið hafi á köflum haldið boltanum ágætlega en vantað að skapa sér færi. „Þetta voru mikil hlaup og menn voru orðnir þreyttir þegar þeir voru komnir fram. Það fór mikil orka í varnarleikinn og því sköpuðum við ekki mikið af færum.“

Hann segir ekkert annað en sigur koma til greina gegn Kýpur á þriðjudaginn. „Við eigum að taka þrjú stig og það er markmiðið. Við þurfum að vera kaldir að halda boltanum og skapa okkur færi líka. Það er góður möguleiki á sigri í þeim leik.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×