Fyrstu umferð í efstu og næstefstu deild spænsku deildarkeppninnar í knattspyrnu hefur verið frestað. Samtök atvinnuknattspyrnumanna á Spáni, AFE, höfðu áður hótað verkfalli fyrstu tvær leikhelgarnar.
AFE berjast fyrir bættu öryggi knattspyrnumanna þegar kemur að launagreiðslum. Mörg lið á Spáni líkt og annars staðar í Evrópu standa illa og vilja leikmenn að þeim séu tryggð laun.
Að sögn AFE skulda spænsk knattspyrnufélög leikmönnum sínum samtals rúma 8.2 milljarða íslenskra króna. LFP, samtök félaganna 42 í spænsku efstu deildunum tveimur, hafa boðið varasjóð sem nemur 6.5 milljarði en AFE telja þá upphæð ekki næga.
Boðað hefur verið til funda hjá samtökunum á laugardag og mánudag. Fundur samtakanna á miðvikudag var stuttur og engin lausn virðist í sjónmáli.

