Enski boltinn

Mourinho vill til Englands á ný

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Mourinho á góðri stund í Madríd
Mourinho á góðri stund í Madríd MYND:NORDICPHOTOS/GETTYS
Jose Mourinho þjálfari Real Madrid segir að eftir að hann hætti með spænska stórliðið ætli hann að taka við liði á Englandi á nýjan leik.

Portúgalinn segist ánægður í starfi sínu hjá Real Madrid en "ástríða mín er á Englandi," sagði Mourinho í viðtali við Rás 4 hjá breska ríkisútvarpinu BBC í dag. "Mitt næsta skref er að snúa aftur [til Englands]. Finnið fyrir mig félag eftir tvö ár," sagði Mourinho á léttu nótunum.

Mourinho átti frábæru gengi að fagna með Chelsea. Hann yfirgaf félagið 2007 eftir að hafa unnið deildina í tvígang, enska bikarinn og deildarbikarinn. Þaðan fór hann til Inter þar sem hann landaði þrennunni, ítalska meistaratitlinum, bikarnum og Meistaradeildinni. Nú situr Real Madrid á toppi spænsku deildarinnar þremur stigum á undan Barcelona.

"Ég tel þetta vera stærsta félagið í sögu knattspyrnunnar. Ég vildi ekki missa af tækifærinu á að vinna hér," sagði Mourinho um Real Madrid.

"Næsta skref mitt er að fara aftur til Englands og starfa þar í lengi."

Mourinho hefur löngum verið orðaður við framkvæmdarstjórastöðuna hjá Manchester United eftir að Sir Alex Ferguson hættir. Hann gaf því byr undir báða vængi sumarið 2009 þegar hann var stjóri Inter.

"Ég myndi íhuga að taka við Manchester United en United verður að segja til um hvort félagið vilji ég taki við liðinu af Sir Alex Ferguson eða ekki. Ef liðið vill það þá er það klárt mál."

Ekkert fararsnið er hins vegar á Sir Alex. "Það er erfitt fyrir mig að segja hvenær starfið verið laust. Það verður heilsa mín sem stjórnar því. Ég mun halda áfram þar til ég bý ekki lengur yfir þeirri orku sem ég hef alla tíð búið yfir," sagði Ferguson fyrr á árinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×