Enski boltinn

Mancini og Redknapp vilja að Villas-Boas hætti að kveina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Andre Villas-Boas, stjóri Chelsea, hefur ekki komið neitt sérstaklega vel út í enskum fjölmiðlum í vikunni eftir að hann sakaði fjölmiðlana um að leggja félagið í einelti.

Villas-Boas sagði eftir sigur Chelsea á Valencia í Meistaradeildinni að liðið hafi fengið ósanngjarna umfjöllun og að það væru samantekin ráð fjölmiðlamanna að koma fram með þessum hætti.

Villas-Boas hefur verið talsvert gagnrýndur fyrir störf sín í haust en Chelsea er þó komið áfram í 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar og er í toppbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar. Liðið er þó tíu stigum á eftir toppliði Manchester City en þau mætast á mánudagskvöldið.

„Þegar maður tapar verður maður að vera tilbúinn að taka gagnrýninni,“ sagði Mancini við enska fjölmiðla. „Svo þegar liðin vinna þá er allt mjög jákvætt. Svona er líf okkar knattspyrnustjóranna.“

Villas-Boas gagnrýndi einnig Gary Neville fyrir orð sem sá síðarnefndi lét falla í umfjöllun Sky-sjónvarpsstöðvarinnar fyrir leikinn gegn Valencia.

„Værir þú til í að vera í sporum Steve Kean (hjá Blackburn)? Sjáðu hvað hann hefur mátt þola,“ sagði Redknapp um málið. „Hann hefur ekki kvartað og sagst vera fórnarlamb, er það nokkuð?“

„Þú verður bara að halda áfram að sinna þinni vinnu. Það þýðir ekkert að kvarta. Það gagnast ekki og ástandið verður aðeins verra. Það eina sem dugar er að vinna leiki.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×